Íslandsmeistaramót Skotíþróttasambands Íslands í haglabyssugreininni “Compak Sporting” fór fram á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi um helgina. Í greininni er skotið á 100 leirdúfur hvorn daginn og er mest hægt að ná 200 stigum í keppninni. Í kvennaflokki sigraði Dagný Huld Hinriksdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur með 158 stig, í öðru sæti varð Snjólaug María Jónsdóttir úr Skotfélaginu Markviss á Blönduósi með 156 stig og bronsið vann Þórey Inga Helgadóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur með 108 stig.
Í karlaflokki sigraði Ævar Sveinn Sveinsson úr Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar með 185 stig, Jón Valgeirsson úr Skotfélagi Reykjavíkur varð annar með 184 stig og í þriðja sæti hafnaði Jóhann V. Ævarsson úr Skotfélagi Akureyrar með 183 stig. Aðeins einn keppandi mætti í unglingaflokk, Hergill Henning Kristinsson úr Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar, með 128 stig og hlaut því titilinn Íslandsmeistari Unglinga. Í liðakeppninni sigraði A-sveit Skotfélags Akureyrar, A-sveit Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar varð önnur og í þriðja sæti varð B-sveit Skotfélags Akureyrar.