Gleðilegt ný ár ! Skoða sem PDF skjal
Laugardagur, 31. desember 2011 21:50

Stjórn félagsins þakkar félagsmönnum samstarfið á liðnu ári og frábært framlag þeirra einstaklinga sem lagt hafa hönd á plóginn við starfið í félaginu við hin ýmsu verkefni sem unnin hafa verið á árinu.

Það hefur oft verið nefnt hér á síðunni undanfarin ár að félagsstarfið gangi ekki upp nema með aðkomu félagsmanna sjálfra í hinum ýmsu verkefnum.

Það er mikilvægt að nefna þetta hér enn og aftur, vegna þeirra margvíslegu verkefna sem bíða félagsins á nýju ári, sem þarfnast starfskrafta félagsmanna ekki síður nú en oft áður.

Starfið í Egilshöllinni hefur gengið frábærlega vel á síðasta ári og árum,........ ......en það gerist ekki af sjálfu sér, síður en svo, enda hefur starfið í höllinni verið í höndum áhugasamra félagsmanna sem hafa metnað til að láta hlutina ganga upp. Vinnuframlag þessara einstaklinga verður seint full þakkað.

Nú blasir við félagsmönnum aukinn áhugi í riffilgreinum-úti og í haglagreinum. Nú þegar er í undirbúningi mótaskrá í riffilgreinum, bæði í Benchrest svo og í veiðirifflakeppnum ýmiskonar og í Silhouette. Mótaskrá fyrir Skeet er þegar komin út og starfið þar er vaxandi frá ári til árs.

Það er því öllum ljóst sem fylgst hafa með félaginu undanfarin ár að það verður lítil framför í greinum félagsins ef hinn almenni félagsmaður kemur ekki að starfinu og þá er vísað í starfið í Egilshöllinni, sem dæmi því til sönnunar.

Til að undirstrika hve mikilvægt það er að félagsmenn taki höndum saman um starfið í félaginu og í skótíþróttinni almennt, er kannski einfaldast að benda á samantekt gkg 27. des. sl. hér á síðunni, um ágangur íslenska skotíþróttafólksins undanfarin misseri. Samantekt gkg sýnir svo ekki verður um villst að eitthvað hefur verið gert rétt hjá skothreyfingunni að undanförnu, a.m.k. er árangurinn komin á heimslista, nr. 41, nr 61 og nr 79 - í þremur greinum skotíþrótta, árangur sem félagar í SR hafa náð á elrendri grund.

Hér fyrir neðan er samantekt gkg og gæti hún heitið svona:

Hvar er íslenskt skotíþróttafólk statt í hlutfalli við þá bestu í heiminum ?

" Í áhugaverðri grein sem Sigurður E.Þórólfsson, íþróttafréttamaður, ritar í Fréttablaðið í dag, er hann m.a. að bera saman árangur íslenskra íþróttamanna í hlutfalli við þá bestu. Þar kemur fram að að okkar bestu íþróttamamenn eru ansi nærri þeim bestu í heiminum þegar reiknað er í prósentum.

Ekkert var fjallað um skotmenn frekar en fyrri daginn.

Ég gerði því að gamni léttan samanburð á Íslandsmetum okkar bestu skotíþróttamanna.

Í frjálsri skammbyssu á Ásgeir Sigurgeirsson Íslandsmetið, 565 stig sem hann setti í sumar. Heimsmetið í greininni á Sovétmaður síðan á ólympíuleikunum í Moskvu 1980, 581 stig. Met Ásgeirs er því aðeins 2,7% frá því.

Ásgeir á einnig metið í loftskammbyssu, 586 stig. Heimsmetið er 594 stig og er því met Ásgeirs aðeins 1,3% frá heimsmetinu !

Í haglabyssu skeet á Örn Valdimarsson Íslandsmetið 120 stig síðan á HM í sumar. Heimsmetið er 125 stig og því met Arnar aðeins 4% frá því.

Metið með final í Skeet á Sigurþór Jóhannesson, 143 stig en heimsmetið er 150 og er þar munurinn aðeins 4,6%.

Jórunn Harðardóttir á Íslandsmetið í loftskammbyssu kvenna með final, 467,9 stig en heimsmetið er 493,5, sem þýðir að met Jórunnar er aðeins 5,1% frá því.

Það er því deginum ljósara að skotíþróttamenn okkar eru klárlega meðal bestu íþróttamanna þjóðarinnar í dag og jafnvel þótt víðar væri leitað. Ásgeir er t.d. í 41.sæti á heimslista í frjálsri skammbyssu og í 61.sæti í loftskammbyssu. Örn er í 79.sæti á heimslistanum í skeet. Einnig má geta þess að skor Ásgeirs í frjálsu skammbyssunni var 6. besti árangur einstaklings á árinu í þeirri grein. /gkg "

Með þeim árangri sem náðs hefur í uppbyggingu aðstöðunnar til iðkunar skotíþrótta og árangri einstakra einstaklinga í skotíþróttinni er það ljóst að það er verkefni allra þeirra, sem í félaginu eru, að tryggja þann árangur sem náðst hefur, bæta hann og auka.

Með samstilltu samstarfi allra félagsmanna í þágu skotíþróttarinnar á komandi árum mun skotíþróttin standa styrkum stoðum til framtíðar.

Þegar talað er um að félagsmenn komi að verkefnunum félagsins er átt við það að bæta aðstöðuna, bæta og efla árangur keppenda félagsins, bæta aðstöðu þeirra sem koma að félaginu í fyrsta skipti með því að skapa aðstöðu til kennslu ýmiskonar varðandi skotfimi og það sem henni fylgir.

Markmið Skotfélags Reykjavíkur er að ná árangri í skotíþróttinni, efla hana og fjölga þeim sem ástunda hana. Til að ná árangri í skotíþróttinni þarf ástundun og iðni, það er það sem ber árangur í skotíþróttum eins og öðru í lífinu.

Stjórn félagsins óskar félagsmönnum gleðilegs árs og velfarnaðar á nýju ári. 

AddThis Social Bookmark Button